Friðþór Ingason
Eftir Friðþór Ingason: "Mikið ósköp hefði ég viljað sleppa við þessa reynslu, en reynslan er komin og þá aukin þekking sem ég er þakklátur fyrir í dag."
Í tilefni af alþjóðadegi heilbrigðisdagsins sem var 7. apríl sl. langar mig að koma inn á það málefni sem var haldið á lofti þann dag. Já, þann dag var sjúkdómurinn þunglyndi tekinn sérstaklega fyrir og er það gott og mörgum þykir ánægjulegt að slíkt skuli vera valið þetta árið, þar sem afar margir hafa slíkan leiðindasjúkdóm í töskunni sinni og mikilvægt að samfélagið okkar verði opið fyrir að slíkt sé til.

Þessi sjúkdómur er óútreiknanlegur og maður er aldrei fullviss um að þessi dagur í dag verði hinn besti, þrátt fyrir að von manns sé slík hvern dag.

2010 greindist ég með þennan leiðindasjúkdóm sem ég óskaði mér ekki, ég fékk á þeim tíma ágætis lyf til að slá niður þann sársauka sem var farinn að valda mér miklu hugarangri og gekk sú lyfjagjöf vel til nokkurra ára, en ekkert í líkingu við það sem kom síðar. Í kjölfar þess hófst vinnan mín að bók, sem mun koma út á næsta ári og heitir Lærdómsvegurinn og vísar það til þess lærdómsvegar sem ég hef gengið eftir að hafa sokkið djúpt í þunglyndið og greinst með geðhvörf haustið 2016.

Ég hefði aldrei, nei aldrei nokkurn tímann, hugsað að vanlíðan í slíku djúpu þunglyndi gæti haft slík áhrif á mann að maður lamast, já ég gat ekki neitt, vildi ekki neitt og sagði ekki neitt. Ég lá í sófanum grátandi alla daga, horfði á lífið og fjölskylduna, horfði á það sem ég var vanur að gera hvern dag, já, mæta í vinnu, já, svona almenn heimilisstörf sem við höfum alltaf unnið saman, ég og eiginkonan. Ég lá og var nokkuð sama um allt, þetta er algjört helvíti og held ég að margur geri sér ekki fulla grein fyrir hversu viðbjóðsleg þessi vanlíðan er.

 

Innlegg í reynslubankann

Mikið ósköp hefði ég viljað sleppa við þessa reynslu, en reynslan er komin og þá aukin þekking sem ég er þakklátur fyrir í dag. Skrítið, ekki satt, að segja að maður sé þakklátur fyrir þessi ósköp, en samt sem áður horfi ég á þetta fyrirbæri, þunglyndi/geðhvörf, með þökkum vegna þess að ég hef lært og er að læra hvern dag á mig sjálfan. Að veikjast af geðsjúkdómi eykur þekkingu og þá sérstaklega sjálfsþekkingu sem okkur er svo mikilvæg.

 

Í dag tel ég mig vera á nokkuð góðum vegi en auðvitað er það einhvernveginn þannig að ég þarf alltaf að vera meðvitaður um hugsun mína og hegðun sem ég lærði á námskeiði (ham) eftir að ég var lagður inn á geðdeild 33C í desember 2016. Það var mikil reynsla og verð ég ævinlega þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu því góða starfsfólki sem starfaði þar og hélt utan um mig. En þetta voru erfið skref að ganga og viðurkenna fyrir sjálfum sér að þetta væri staðreynd.

 

Getur komið fyrir alla

En af hverju kemur þessi sjúkdómur ? Rætt er um að nokkrir þættir komi þarna að, það er að segja að umhverfisþættir geta haft veruleg áhrif ásamt erfðum. Já, margt sem getur og hefur áhrif.

 

Ég er heppinn að eiga frábæra vinnufélaga sem taka tillit til mín, afar sérstakan og góðan yfirmann á vinnustað mínum og ræðum við hlutina eins og þeir eru og voru. Ég vil sem minnst ræða um það sem var, vegna þess að því er lokið og get ég aldrei breytt slíku aftur nema læra af þeirri reynslu sem ég öðlaðist á þessum tíma. Það er mikilvægt að opna umræðuna og að vinnuveitendur séu opnir fyrir slíkum sjúkdómi, því eins og oft hefur verið rætt um þá er þetta hvorki minna né meira en að greinast með krabbamein og eða aðra vonda sjúkdóma og þar af leiðandi gríðarlegt álag á fjölskylduna. Við vorum einnig heppinn að eiginkonan á frábæran yfirmann sem tók og tekur mikið tillit til fjölskylduaðstæðna og sérstaklega á þessum erfiðasta tíma sem við höfum upplifað.

Fjölskyldumeðlimir ganga ekki síður í gegnum mikið þegar ástvinur þeirra þjáist af geðsjúkdómi. Tilfinningar eins og vonleysi, reiði, hræðsla, sektarkennd og örvænting eru algengar og auka enn á ringulreiðina sem oft skapast hjá fjölskyldunni. Stuðningur við fjölskylduna er því mikilvægur og að allt sé opið og hlutirnir ræddir eins og þeir eru. Það er einnig mikilvægt að fræða fjölskyldumeðlimi og vini um geðsjúkdóma og hvernig best er að taka á málum og hvernig staðan er hverju sinni.

 

Stuðningsnetið mikilvægt

Stuðningsnet vina og fjölskyldu er einnig mjög mikilvægt fyrir þann sem þjáist. Það verður seint ofsagt hversu mikilvægt það er að styðja við þetta stuðningsnet á skipulagðan hátt og það var svo sannarlega að virka í okkar tilfelli, við eigum kæra vini og fjölskyldu sem studdi okkur og hafði reglulega samband, en stundum sáum við líka að fólkið fjarlægðist okkur eða mig, ég tel það í dag í raun hafa verið vanþekking og hræðsla. Maki, börn og fjölskyldan þurfa á stuðningi að halda.

 

Það er von mín í dag að lærdómsvegur minn haldi áfram og að lífið, með öllu því fallega og erfiða, muni geta þroskað hugsun mína og að njóta þess að vera til. Margar góðar og gagnlegar leiðir eru til, sem dæmi lyf, hugræn atferlismeðferð sem hefur nýst mér afar vel og einnig það að vera í núinu, dagurinn í dag er málið, ég veit ekkert hvað er framundan og þar af leiðandi þarf ég ekki að hugsa um það og hinu liðna er lokið og verður ekki breytt.

Höfum umræðuna opna, höfum lífið allskonar og njótum stundarinnar

Höfundur er þroskaþjálfi.