Svartnættið (kaflabrot)

Það er miðvikudagurinn 9. nóvember 2016 og ég segi við sjálfan mig, þetta er ekki alveg eðlilegt og brest í grát sem var mér svo sár. Eins og foss sem er óstöðvandi en samt svo svalur að því leyti að það létti á, en var sár samt sem áður. Já, sár eins og það væri búið að særa mig margsinnis en skrítna við það að ekkert slíkt hafði verið gert. Ragga mín kemur til mín og segir Friðþór á ég ekki að kanna hvort það sé opið niður á geðdeild og athuga hvernig við getum snúið okkur í að komast þangað. Jú, sagði ég, enda algjörlega búinn á því og búinn að vera hugsa að ég þurfti hjálp.

Ég var keyrður af eiginkonunni niður á bráðadeild geðdeildar í viðtal og skoðun og þar með var fyrsta heimsókn mín á geðdeildina hafin. 

Tilvistarkreppa (kaflabrot)

Það er skrítið að standa þrjátíu og átta ára og sjá og upplifa að eitthvað er breytt, eitthvað svo óeðlilega sárt, og ég týndur

Hvað er að gerast ? ég horfði á mig og reyndi að skyggnast inn í huga minn sem var allur í flækju, líkt og margir hnútar séu á bandi eða böndum og allt fast. Ég upplifði einhverja sérkennilega tilfinningu og vissi ekki hvað það var, ertu orðinn svo klikkaður spurði ég mig ? og var nærri því sannfærður um að svo væri orðið. Þetta var samt eitthvað allt annað en ég hafði upplifað.

Ég stóð einn með mér, horfði í kringum mig og spurði mig aftur, hvað er að gerast ?

Þetta hljómar kannski skrítið en þetta er satt, já ég tuðandi yfir ekki neinu, en mér fannst það svo eðlilegt að ræða þessa og hina hutina sem skipta í raun engu máli. Ég áttaði mig heldur ekki á, að þegar ég tuðaði og var neikvæður út í lífið og þetta sem var svo flækt og flókið  í huga mér, gerði mér ekki gott, það var engin ávinningur  með þessu tuði nema leiði og vansæld. 

Aðstandendur og fjölskyldan (kaflabrot)

Þegar einn veikist í fjölskyldunni þá veikjast allir, og er það staðreynd og þekking mín í dag. Áhrif veikindanna á fjölskyldur kemur ekki um leið og maður veikist sjálfur, heldur getur það komið vikum, mánuði eða síðar eftir að manneskja með geðsjúkdóm veikist. Þetta hef ég eftir þeim fagaðilum á Landspítalanum, sem hafa reynst okkur afar vel í þessu ferli og á lærdómsvegi. Þá leynist ekki að maður sé veikur, en hvernig veikur er maður? Þetta var spurning fjölskyldu minnar, og hvað er hægt að gera? Hegðun mín breyttist mikið, hún breyttist á þann veg að ég var hreinlega ekki með. 

Lokaorð úr kafla sem heitir : Frásögn Röggu minnar

Mín heitasta ósk er að börnin okkar komist ósködduð frá þessari erfiðu lífsreynslu og vil ég trúa því að með hjálp frá frábæru fagfólki muni það takast.

Lífið er einn lærdómsvegur og með því að lifa lífinu lifandi getum við lært og miðlað til annarra því sem lífið bauð okkur upp á.

Ástarkveðja Ragga

 

Lokaorð úr kafla sem heitir : Frásögn dóttur

Það er mikilvægt að við getum rætt málin okkar og sagt sögu, því þegar einhver í fjölskyldunni er veikur af geðsjúkdómi þá er það ekki neitt til að skammast sín fyrir. Ég er stoltasta stelpan hans pabba og við hér heima höfum alla tíð geta rætt þessa hluti. Hann pabbi er hetja og mamma er meistari fyrir það að geta haldið vel utan um okkur. Elska ykkur.... ykkar Fríða Rún

Lokaorð úr kafla sem heitir : Frásögn sonar

Í dag líður mér mun betur af því að ég er hættur að hugsa út í gömlu tímana. En ég viðurkenni að þetta var erfitt og sárt. Ég er að reyna að minna mig á að þetta er ekki pabba mínum að kenna, hann veiktist bara af svona vondum sjúkdómi sem heitir þunglyndi innan geðhvarfa.

Ég elska þig pabbi, þinn sonur

Ingi Steinn Friðþórsson